Minning

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Álfhildur Sigurðardóttir

Á heiðinni fram undir fjalli
stóð forðum svolítill bær.
þar fossinn stall af stalli
eins steypist fagur og tær.
Hér lyngið breiðist um bala
og birki trén veita skjól.
Í lautum lindir hjala
og ljóma á móti sól.

Í ánni urriðar vaka
og æða um flúðir og þröng.
Álftir með unga kvaka
með angurblíðum söng.
Afi minn átti hér heima
með ömmu í sælu og ró.
Gömlu árin þau geyma
og glaðar minningar streyma,
um heiðina fögru
þar sem ást og hamingja bjó.